„Það gilda sérstök lög um stofnunina og okkur ber að fara með eignarhlutina í samræmi við góða stjórnsýslu og viðskiptahætti, gæta jafnræðis við hluthafa og samskipti við öll fjármálafyrirtæki. Við erum að fara að lögum,“ segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins. Gunnar Helgi Hálfdanarson , fráfarandi formaður bankaráðs Landsbankans, gagnrýndi afskipti Bankasýslunnar harðlega á aðalfundi bankans í gær. Gagnrýni hans beindist ekki síst að forstjóranum Jóni Gunnari.

Gunnar sagði samstarfið við Bankasýsluna hafa verið gott fyrstu tvö árin eftir að hann settist í bankaráðið. Breyting hafi hins vegar orðið  til hins verra þegar nýr forstjóri tók við. Hann sagði m.a. að þótt ríkið væri stór hluthafi hafi átt að forðast pólitísk afskipti af fyrirtækinu með því m.a. að setja á stofn Bankasýsluna, sem færi með hlutinn fyrir hönd ríkisins. Sambandið á milli bankaráðs og Bankasýslu ætti því að vera með svipuðum hætti og samband stjórna annarra fyrirtækja við hluthafa. Gunnar Helgi sagði að í fyrra hafi sér fundist Bankasýslan vera að fara inn á starfssvið ráðsins og að versnandi samskipti við Bankasýsluna hafi dregið úr skilvirkni bankaráðsins eftir því sem á leið. Þá sagði hann að þegar Elín Jónsdóttir var forstjóri Bankasýslunnar hafi hafi bankaráðið aldrei orðið vart við að reynt væri að hafa áhrif á starfsemi bankans. Á síðasta ári hafi orðið breyting á.

Jón Gunnar segir í samtali við vb.is gagnrýni fráfarandi bankaráðsformanns almenna og nefni hann engin einstök tilvik þar sem Bankasýslan hafi farið inn á valdsvið bankaráðsins. Hann vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti en vísaði í lög um Bankasýsluna .