Bob Diamond, forstjóri Barclays, fær 6,5 milljóna punda bónusgreiðslu fyrir árangur síðasta árs, jafnvirði rúmlega 1,2 milljarða króna. Greiðslan er veitt fyrir árangur hans sem yfirmaður fjárfestingabankasviðs og leggst ofan á 250 þúsund punda árleg laun Diamonds. Það eru um 47 milljónir króna. Fjallað er um bónusgreiðsluna á viðskiptavef BBC í dag.

Robert Peston, viðskiptaritstjóri BBC, segir að launabótin muni fara í taugarnar á mörgun. Slíkar greiðslur hafa verið gagnrýndar harðlega eftir fjármálakreppu og bankar meðal annars lofað því að draga úr þeim.

Diamond tók við starfi forstjóra Barclays í upphafi þessa árs. Bónusgreiðslan samanstendur einkum af hlutabréfum í bankanum.