Forstjóri breska bankans Barclays, C.S. Venkatakrishnan, hefur verið greindur með eitilfrumuæxli, sem er tegund af krabbameini. Í tilkynningu segir hann að æxlið hafi uppgötvast snemma og rannsóknir gefi til kynna að það sé á afmörkuðum stað.

Venkatakrishnan segir að læknar á Memorial Sloan Kettering Cancer Center í New York hafi upplýst sig um að batahorfur væru mjög góðar og að ástand hans væri læknanlegt. Meðferðin muni taka á bilinu 12-16 vikur.

„Fyrirtækisið verður rekið með hefðbundnum hætti á þessu tímabili og ég mun áfram taka virkan þátt í að stjórna því. Hins vegar mun ég þurfa að vinna heima á köflum og mun ekki geta ferðast. Sem betur fer hreyfi ég mig reglulega og er sterkur og hraustur nú þegar meðferðin er að hefjast,“ segir Venkatakrishnan sem þakkar jafnframt stjórn og starfsfólki Barclays fyrir stuðning.

Venkatakrishnan tók við stöðu forstjóra Barclays í nóvember 2021 af Jes Staley sem neyddist til að segja af sér eftir rannsókn breskra eftirlitsstofnana á sambandi hans og bandaríska fjárfestisins og kynferðisbrotamannsins Jeffrey Epstein.