Fyrsti ákæruliðurinn í nýrri ákæru gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, lýtur að viðskiptum með Vöruveltuna sem rak 10-11 verslanirnar. Þar er hann ákærður fyrir fjársvik en til vara umboðssvik er hann hlutaðist til um að Baugur hf. keypti Vöruveltuna hf.

Á þeim tíma rak Vöruveltan verslanir undir nafninu 10-11. Í maí 1999 lét Jón Ásgeir Baug kaupa fyrirtækið án þess að stjórn Baugs hf. væri kunnugt um að hann hafði keypt fyrirtækið sjálfur fyrir umtalsvert lægri upphæð rúmum sjö mánuðum fyrr og væri enn meðal eigenda þess ásamt einkahlutafélagi sem hann hafði umráð yfir eins og kemur fram í fréttatilkynningu ákæruvaldsins.

Á því er byggt af hálfu ákæruvaldsins að með þessum blekkingum hafi ákærði og félög honum tengd auðgast á kostnað almenningshlutafélagsins Baugs.

Í tilkynningu sem Jón Ásgeir sendi frá sér fyrr í dag kemur fram að hann telur ákæruvaldið ekki skilja eðli viðskiptanna. Í tilkynningu hans segir: "Við lestur á þeim ákæruliðum, sem snúa að viðskiptum með hlutabréf í 10-11, virðist ákæruvaldið rugla óskyldum viðskiptum saman. Lýsing ákæruvaldsins á viðskiptum með hlutabréf í 10-11, á sér enga stoð í raunveruleikanum. Staðreyndin er sú að Baugur Group hf. hagnaðist verulega á kaupunum á 10-11 og var kaupverð félagsins hið sama og stjórn þess samþykkti að greiða fyrir félagið. Það er misskilningur saksóknarans að til hafi staðið að fasteignir tilheyrðu rekstri 10-11, þegar Baugur hf. keypti félagið. Þessi ákæruliður er efnislega rangur. Getgátur um ímyndaðan hagnað Gaums og tengdra aðila eru óviðeigandi í ákæru. Fyrir þann sem til þekkir er augljóst er að sérstakur saksóknari hefur ekki skilið eðli þessara viðskipta."

Voru settir í stjórn að sér forspurðum

Ljóst er að félögin Fjárfar, Vöruveltan og Litla fasteignafélagið munu skipta verulegu máli við málflutning. Áður hefur komið fram í fréttum að nokkrir þeirra sem komu að viðskiptunum með Vöruveltuna kannast ekki við þekkingu á málinu og virðast, miðað við vitnisburð þeirra, hafa verið settir í stjórn félaganna sér að forspurðum. Á það sérstaklega við um Fjárfar. Þar mun vitnisburður Sigfúsar R. Sigfússonar, fyrrverandi forstjóra Heklu, Gylfa Arnbjörnssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra EFA, og Sævars Jónssonar, stofnanda Leonards, skipta máli.

"Eins og ég hef margítrekað þá hef ég enga fundi setið á vegum þessara fyrirtækja og því hef ég ekkert um þá að segja," segir Sigfús í samtali við Morgunblaðið 11. júlí 2005 og bætir við: "Einstaklingarnir sem eiga hafa setið þá með mér eru mér nánast ókunnir og eins og fram hefur komið eru þessi mál öll til rannsóknar. Mál þetta allt kemur mér spánskt fyrir sjónir, en eins og aðrir í landinu þá verð ég að bíða eftir að niðurstaða dómstólanna liggi fyrir."

Í sama viðtali sagðist Sigfús ekki heldur hafa setið stofnfund hlutafélagsins Klukkubúðanna 4. desember árið 1998, líkt og segir í stofnfundargerð félagsins. Ekkert hefur komið fram um það hver ber ábyrgð á þesum röngu tilkynningum til hlutafálagaskrár.

Telur að Baugur hafi hagnast um fjóra milljarða á Vöruveltunni

Málefni Vöruveltunar hafa verið töluvert til umræðu og gerði Jón Ásgeir þau að umræðuefni í bréfi sínu til ríkislögreglustjóra 30. júní 2005.

Í skjali því sem Morgunblaðinu barst frá lögmanni eins sakborninga í ágúst í fyrra eru einnig settar fram athugasemdir sakborninga við einstaka ákæruliði, og eru þær birtar orðrétt í Morgunblaðinu 14. ágúst, 2005:

"JÁJ gerði samning við seljendur Vöruveltunnar sem umboðsmaður kaupanda, sem skyldi tilgreindur innan 30 daga. Samningurinn fól þannig í sér sölutryggingu fyrir eigendur Vöruveltunnar sem JÁJ var ábyrgur fyrir. Íslandsbanki tók yfir söluferlið og aðrir aðilar komu að málinu, sem voru eigendur 70% hlutafjárins en ekki JÁJ líkt og segir í ákæru. Voru viðskiptin gerð með vitund og samþykki hluthafa Baugs, sem var ekki skráð félag á hlutabréfamarkaði á þeim tíma. Enginn auðgunarásetningur var til staðar og fyrir liggur að JÁJ hagnaðist ekkert á þessum viðskiptum. Baugur (í dag Hagar hf.) hefur hins vegar hagnast um 3,5 til 4 milljarða á viðskiptunum að mati sakborninga. Þessu er nánar lýst í bréfi JÁJ 30. júní 2005."

Kannast ekki við lýsingu Jóns Ásgeirs

Gylfi, sem var framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélags Alþýðubankans (EFA) þegar Baugur keypti Vöruveltuna hf., sem rak 10-11 verslanirnar, kannast ekki við lýsingu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, á þeirri atburðarás sem lauk með kaupum Baugs á Vöruveltunni árið 1999 og kemur fram í áðurnefndu bréfi Jóns Ásgeirs til ríkislögreglustjóra. Það kemur fram í frétt Morgunblaðsins 7. júlí á síðasta ári.

Í bréfinu segir Jón Ásgeir meðal annars að eftir að EFA hafi gert tilboð í hlutafé í Vöruveltunni hafi hann haft frumkvæði að því að kanna hvort Baugur gæti eignast fyrirtækið. Það hafi gengið eftir en hann hafi sjálfur þurft að greiða mismuninn á tilboði Eignarhaldsfélagsins og Baugs, um 135 milljónir.

Gylfi er nú framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands. Hann sagði við Morgunblaðið að Eignarhaldsfélagið hafi aldrei gert slíkt tilboð. "Þessa lýsingu sem Jón Ásgeir er með þarna, hana kannast ég ekki við," sagði Gylfi í Morgunblaðinu.

Að sögn Gylfa keypti EFA ásamt lífeyrissjóðum 35% hlutafjár í Vöruveltunni í nóvember 1998 með milligöngu Íslandsbanka. Af því var hlutur EFA um 27-28%. EFA hafi þá verið tjáð að aðrir eigendur væru Fjárfar ehf. og að eigendur þess væru Árni Samúelsson, kenndur við Sambíóin, Sigfús R. Sigfússon í Heklu, Sævar Jónsson kaupmaður og Tryggingamiðstöðin hf. Þá hafi Helga Gísladóttir átt 25% hlut í Vöruveltunni en hún stofnaði fyrirtækið ásamt Eiríki Sigurðssyni.