Bauhaus er þýskt byggingarvörufyrirtæki sem stefndi á opnun verslunar við Vesturlandsveg í lok árs 2008. Búið var að manna flestar stöður í fyrirtækinu en í kjölfar bankahruns árið 2008 var öllum starfsmönnum sagt upp.  Húsnæðið hefur að mestu staðið autt eftir að byggingu þess lauk árið 2008. Bauhaus á Íslandi er 70% í eigu þýska fyrirtækisins Bauhaus AG og 30% í eigu Heinz G. Baus, stofnanda Bauhaus samkvæmt ársreikningaskrá. Nú er verið að íhuga opnun fyrirtækisins.

„Við teljum að það sé að nást stöðugleiki aftur á Íslandi en það var forsenda þess að við skoðuðum opnun,“ segir Mads Jörgensen, forstjóri Bauhaus á Norðurlöndunum, og bætir við: „Þar sem við eigum byggingu sem er til reiðu fyrir starfsemi væri eðlilegt fyrir okkur að meta núna hvenær rétti tíminn sé til að opna.“ Jörgen heimsótti landið nýverið til  að kanna stöðu íslensks hagkerfis. Kenn Pedersen, sölu- og markaðsstjóri Bauhaus á Norðurlöndunum var með í för. Þetta kemur fram í frétt Vísi.