Gengi hlutabréfa í kanadíska farsímaframleiðandanum BlackBerry féll um 16,5% eftir að greint var frá því að Thorsten Heins, forstjóri fyrirtækisins, ætli að stíga frá. Þegar er búið að ráða eftirmann Heins. Sá heitir John Chen. Hann er 58 ára og fyrrverandi forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Sybase sem SAP keypti fyrir 5,8 milljarða dala árið 2010.

Á sama tíma tilkynnti stjórn fyrirtækisins að hún sé hætt við að selja fyrirtækið til hóps fjárfesta sem fjármálafyrirtækið Fairfax Financial leiðir. Fyrirtækið er jafnframt stærsti hluthafi BlackBerry. Kaupverðið átti að nema 4,7 milljörðum dala. Stjórnendur Fairfax Financial gátu ekki fjármagnað kaupin, að því er fram kemur í umfjöllun breska dagblaðsins Financial Times um málið.

Í umfjöllun blaðsins um vandræðaganginn hjá BlackBerry segir að stærsti hluthafi fyrirtækisins áformi nú að leggja BlackBerry til einn milljarð dala, jafnvirði um 120 milljarða íslenskra króna, til að koma rekstrinum á réttan kjöl. Innspýtingin felst í lánveitingu með breytirétti sem breyta má í hlutabréf að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Vandræðagangurinn skýrist einkum af miklum væntingum stjórnenda BlackBerry til nýjasta síma fyrirtækisins BlackBerry Z10, en sala á honum hefur verið undir væntingum. VB.is prófaði símann í sumar.