Hector Sants, forstjóri breska fjármálaeftirlitsins, sakar Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands um að eiga sinn þátt efnahagshruninu. Ráðherrar í ríkisstjórninni hafi ýtt undir lántökur og skuldsetningu, sérstaklega á húsnæðismarkaði, sem meðal annars hafi leitt til kreppunnar.

Viðskiptaritstjóri breska blaðsins The Times segir í frétt á vef blaðsins að þetta virðist vera í fyrsta skipti sem fjármálaeftirlitið hafi gagnrýnt ríkisstjórnina á beinan hátt fyrir að hafa stuðlað að jafnvægisleysi sem leiddi til bankakreppunnar síðustu tvö árin.

Stjórnarformaður breska fjármálaeftirlitsins, Lord Turner of Ecchinswell, gaf í skyn á fundi með þingmönnum í síðasta mánuði að fjármálaráðuneytið hefði þrýst á stofnunina að beita bankana sem minnstu eftirliti.

Gordon Brown hefur neitað að viðurkenna að mistök hafi verið gerð í fjármálaráðherratíð hans í undanfara kreppunnar. Hann kvaðst ekki færast undan ábyrgð á ákvörðunum sínum en hafnaði því að biðjast afsökunar.