Angela Ahrendts, forstjóri bresku tískuvörukeðjunnar Burberry Group, hefur ákveðið að hætta störfum. Hún mun taka við smásöluhluta bandaríska tæknirisans Apple um mitt næsta ár. Þegar er búið að ráða eftirmann hennar en Christopher Bailey, hönnuður Burberry, tekur við forstjórastólnum hjá Burberry.

Bloomberg-fréttaveitan segir Ahrendts verða á meðal lykilstjórnenda Apple, skör neðar en forstjórinn Tim Cook situr á.

Ahrendts varð forstjóri Burberry fyrir tæpum átta árum eða í byrjun árs 2006. Í forstjóratíð hennar hefur fyrirtækið dafnað, þar af sala tvöfalt meiri nú en þá og gengi hlutabréfa fyrirtækisins þrefalt hærra. Það féll um 6,2% á hlutabréfamarkaði í Bretlandi í gær eftir að tilkynnt var um fyrirhuguð forstjóraskipti.