Forstjóri sænska fjárfestingabankans Carnegie, Karin Forseke, tilkynnti stjórn félagsins í gær að hún hyggðist láta af störfum í vor, segir greiningardeild Landsbankans.

Haft er eftir henni að framtíð bankans sé betur komin í höndum nýs forstjóra.

Stjórnarformaður Carnegie, Lars Bertmar, harmar ákvörðun Karin og segir hana hafa leitt bankann á farsælan hátt frá því hún tók við stjórnartaumunum árið 2003. Stjórnin mun strax hefja leit að nýjum forstjóra.

Markaðsaðilar tóku heldur illa í afsögn forstjórans, en gengi bréfa í Carnegie lækkaði um tæp 4% í dag. Gengið hefur hins vegar hækkað talsvert frá áramótum, eða um 18,8%. Landsbankinn er stærsti einstaki hluthafinn í Carnegie með 20,4% hlut.

Lars Bertmar sækist ekki eftir endurkjöri sem stjórnarformaður Carnegie og lætur af störfum 23. mars.

Fimm lykilstarfsmenn af fjárfestingabankasviði hafa einnig sagt upp störfum. Fimmmenningarnir hafa verið ráðnir til FIH, dótturfélags Kaupþings banka, segir greningardeildin.

Karin Forseke hefur starfað hjá bankanum frá árinu 1998, þar af undanfarin þrjú ár sem forstjóri.