Rekstur Danske Bank er góður. Vandræði í rekstri hans skrifast að mestu leyti á fjármálakreppuna enda var ekki gert ráð fyrir henni í fjárhagsáætlun bankans. Þetta segir Peter Straarup, forstjóri Danske Bank, sem hefur ákveðið að setjast í helgan stein í skugga fjöldauppsagna og vandræða í rekstri.

Bankinn tilkynnti í dag að hann hyggist grípa til viðamikilla aðhaldsaðgerða sem m.a. felast í uppsögnum tvö þúsund starfsmanna á næstu þremur árum. Danske bank telur að aðgerðirnar geti verið að hluta til að eðlilegum orsökum, þ.e. að starfslok verði að hálfu starfsmannana sjálfra eða þeir komi til með að fara á ellilífeyri. Þetta jafngildir um tíu prósentum af öllum starfsmönnum bankans.

Forstjórinn fráfarandi segir í samtali við netútgáfu danska viðskiptablaðsins Börsen tengjast bankanum nánum böndum og þyki miður hvernig komið sé fyrir honum. Hann sé hins vegar lítið fyrir það að horfa viðstöðulaust í baksýnisspegilinn. Hann telur engu að síður að yfirtökur bankans á Írlandi hafi komið honum í koll.

Straarup hóf störf hjá Danske Bank árið 1968 þegar bankinn var nefndur Bændabanki vegna tengsla hans við landbúnað í Danmörku. Hann segir í samtali við blaðið hafa hlakkað til að fara í vinnuna á hverjum degi og notið þess að vinan með samstarfsfólki sínu. Nú ætli hann að einbeita sér að tónlist og bóklestri.