Robert Iger, forstjóri Walt Disney segir í viðtali við Financial Times í dag að afþreyingarfyrirtækið muni þurfa að endurhugsa viðskiptamódel sitt í ljósi minnkandi sölu á DVD myndum og aukins kostnaðar við framleiðslu og dreifingu.

„Viðskiptaumhverfi í kvikmynda- og afþreyingarbransanum er að breytast mjög hratt,“ hefur FT eftir Iger.

„Ef við bregðumst ekki hratt við þá er einfaldlega engin grundvöllur fyrir kvikmyndaiðnað sem tengist fjölskyldu – og barnamyndum. Það eru skilaboðin sem ég sendi mínu starfsfólki.“

Ekkert er gefið upp hvað nákvæmlega Disney hyggst gera en Iger segir að fyrirtækið sé langt á veg komið með skipulag að aðgerðum sem munu í fyrsta lagi minnka tjón félagsins af minnkandi DVD sölu en eins til að finna nýjar leiðir til að markaðssetja vörur og kvikmyndir Disney samstæðunnar.