*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Erlent 10. október 2018 13:05

Forstjóri Easyjet spáir gjaldþroti flugfélaga

Johan Lundgren, forstjóri Easyjet, segir að gjaldþrot fleiri flugfélaga sé yfirvofandi í kjölfar greiðslustöðvunar Primera Air.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Forstjóri Easyjet, Johan Lundgren, spáir því að gjaldþrot félaga í flugvélarekstri sé yfirvofandi. Þetta kemur fram í frétt Independent. Á ráðstefnunni Abta Convention sagði Lundgren að mörg smærri flugfélög ættu afar erfitt uppdráttar sökum mikilla hækkana á olíuverði undanfarin misseri. Hann var þó ekki reiðubúinn að gefa upp nöfnin á þeim flugfélögum sem hann telur muni fara í gjaldþrot.

Lundgren er ekki sá eini sem lýst hefur áhyggjum sínum af stöðu fyrirtækja í flugrekstri en í maí síðastliðnum spáði forstjóri Ryanair, Michael O´Leary, því að von væri á gjaldþrotum flugfélaga sökum hækkana á olíuverði sem og breytts samkeppnisumhverfi á flugleiðum í Evrópu. Ryanair er helsti keppinautur Easyjet. 

Í síðustu viku var greint frá gjaldþroti flugfélagsins Primera Air. Ástæður gjaldþrotsins voru meðal annars sagðar vera hækkandi olíuverð og lækkun farmiðaverðs á öllum mörkuðum. 

Á ráðstefnunni skaut Lundgren einnig föstum skotum á O´Leary þegar hann var spurður út í ásakanir forstjóra Ryanair þess efnis að starfsmenn Easyjet hafi kynt undir starfsmannadeilur hjá Ryanair.

„Við höfum flugmenn til að fljúga okkar vélum," sagði Lundgren. „Ef þið viljið reka flugfélag er nauðsynlegt að hafa flugmenn til að fljúga vélunum," bætti hann við.