Keith McLoughlin, forstjóri sænska heimilistækjaframleiðandans Electrolux hefur sagt af sér sem forstjóri fyrirtækisins. Jonas Samuelson mun taka við starfi forstjóra félagsins, en hann er nú yfir heimilistækjadeild Electrolux í Evrópu.

Afsögnin kemur einungis mánuði eftir að tilkynnt var um að yfirtaka félagsins á heimilistækjadeild General Electric hefði runnið í sandinn. Samningurinn var metinn á um 3,3 milljarða dala en með henni vildi Electrolux styrkja stöðu sína á Bandarískum markaði. General Electric hætti við samninginn á þeim grundvelli að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna, sem hýsir samkeppniseftirlit landsins, vildi stöðva samninginn á þeim grundvelli að hann auki við hættu á samþjöppun á markaði.

McLoughlin hafði mikið undir í samningnum, hann hafði lagt mikla áherslu á að hann yrði kláraður. Vegna þess að hann gekk ekki upp þurfti Electrolux að greiða bætur til General Electric sem námu 175 milljónum dala, eða um 2,6 milljörðum króna.

Verðfall eftir að samningurinn gekk ekki í gegn

Hlutabréf í félögunum tveim höfðu fjarlægst hvort annað í verði á mánuðum áður en tilkynnt var um að yfirtakan myndi ekki eiga sér stað. Á tímabilinu 15. júlí til 15. desember, þegar tilkynnt var um að samningurinn myndi ekki eiga sér stað, hækkaði hlutabréfaverð General Electric sem nam 11,93% og gengi bréfa í Electrolux lækkaði um 17,27%.

© vb.is (vb.is)