Sveinn Þór Stefánsson hefur sagt upp störfum hjá Existu og hafið störf á fjármálasviði Bakkavarar í London. Sveinn var ráðinn forstjóri Existu í maí síðastliðnum af kröfuhöfum félagsins eftir að fyrrum forstjórum þess, Sigurði Valtýssyni og Erlendi Hjaltasyni, var sagt upp störfum. Hann hafði áður verið framkvæmdastjóri fjármálsviðs Existu.

Á sama tíma og Sigurði og Erlendi var sagt upp var slitið á öll tengsl Existu við bræðurna Ágúst og Lýð Guðmundssyni sem höfðu verið aðaleigendur félagsins um árabil. Bræðurnir eru stærstu eigendur og helstu stjórnendur Bakkavarar. Því er Sveinn kominn aftur í vinnu hjá þeim.

Skúli tekur við

Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Existu, staðfestir að Sveinn hafi sagt upp störfum í byrjun febrúar. Í hans stað hefur verið ráðinn Skúli Valberg Ólafsson, sem hafði áður setið í stjórn Existu.  Skúli er þegar tekinn við starfinu en hann hefur starfað sem fjármálaráðgjafi um árabil. Að sögn Péturs hefur Skúli unnið mikið við fjárhagslega endurskipulagningu í gegnum tíðina og er meðal annars einn eigenda Kalan Capital Reykjavík. „Á meðan að við erum að móta nýja stefnu hjá Existu þá erum við með hann í leigu. Skúli verður tímabundið hjá okkur á meðan að við klárum þessa endurskipulagingu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.

Meðal annars efnis í blaði morgundagsins:

  • „Hefði gert tilkall til forystuhlutverks,“ segir Björn Ingi Hrafnsson, sem tjáir sig í fyrsta skipti um stjórnmálaferil sinn eftir að honum lauk í viðtali við Viðskiptablaðið.
  • Breytt skattaumhverfi leiddi til rúmlega fjórfalt fleiri nýrra samlagsfélaga á síðasta ári.
  • Mikill viðsnúningur á afkomu Lýsis.
  • Óvissa um lán upp á yfir 800 milljarða króna í kjölfar dóms Hæstaréttar.
  • Landsbankamenn funduðu með kröfuhöfum Byrs.
  • Sport & peningar: Ársreikningur KSÍ krufinn til mergjar.
  • Sérstakur saksóknari fær að vita hverjir standa að baki félögum í Lúxemborg.
  • Veiði: Formaður Ármanna einbeitir sér að vatnaveiði.
  • Mentor stofnar fyrirtæki í Bretlandi

Og margt, margt fleira.