Samkvæmt heimildum Reuters fréttastofunnar, er afar líklegt að Rex Tillerson, forstjóri Exxon Mobil Group, verði nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna í nýrri ríkisstjórn Donald Trump, nýkjörins forseta Bandaríkjanna.

Tillerson er sagður mjög vinsæll í Moskvu og hefur hann meðal annars gagnrýnt refsiaðgerðir Bandaríkjanna gegn Rússlandi, vegna Krímeudeilunnar. Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, hefur einnig veitt Tillerson sérstaka vinaorðu Rússlands.

Meðal þeirra fjölmörgu sem komu til greina sem utanríkisráðherra í ríkisstjórn Trumps var Mitt Romney, sem bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 2012, en tapaði fyrir Barack Obama. Romney hefur áður gagnrýnt Trump og aðferðir hans harðlega.

Samkvæmt ónefndum heimildarmanni Reuters, hefur Trump hitt Tillerson tvisvar á undanförnum dögum – en þó hafi Trump ekki enn boðið Tillerson stöðuna formlega. Þó segir háttsettur samstarfsaðili Trump að forsetinn væri mjög nálægt því að velja Tillerson.

Tillerson hefur verið forstjóri Exxon Mobil Group frá árinu 2006. Hann var einnig forseti bandarísku skátahreyfingarinnar á árunum 2010 til 2012.