Gunnar Valur Gíslason forstjóri verktakafyrirtækisins Eyktar segir mikilvægt að bankarnir fari að opna á útlán til framkvæmda á skaplegum kjörum. Stærsta verkefni Eyktar undanfarin misseri hefur verið uppbygging glæsilegrar íbúðar- og atvinnubyggðar við Höfðatorg í Reykjavík. Þar er mest áberandi 19. hæða og 23.000 fermetra skrifstofuturn með hliðarbyggingu sem klæddur er utan með gleri. Gunnar Valur segir að nú sé búið að leigja út um fjórðung húsnæðisins, en margir sem búið var að semja við hafa dottið úr skaftinu vegna efnahagsástandsins. Þar var Sparisjóðabankinn stærstur.

„Veitingastaðurinn Serrano er að opna þarna starfsemi og eins er lögfræðistofa að fara að flytja þarna inn. Mesti vandi verktaka er þó að bankarnir skuli ekki vera farnir að lána fé til framkvæmda og á skaplegum kjörum."

Segir Gunnar Valur að auk þessa sé Eykt með fyrirliggjandi samning við íslenskan hótelrekanda um leigu á óbyggðu húsnæði við Höfðatorg sem á að vera tilbúið 2012. Fjármagn skorti hins vegar til að hefja framkvæmdir. Þá sé einnig búið að gera samning við Sambíóin sem hyggist reka kvikmyndahús við Höfðatorg. Segir hann að ef þessi verkefni kæmust í gang þá skapaði það um 500 ársverk.

Gunnar Valur segir blasa við að með þeirri hávaxtastefnu sem nú er rekin sé verið að halda öllum framkvæmdum niðri. Það þýði að verktakar lognist út af einn af öðrum, en það kosti líka miklar afskriftir. Segir hann að þrátt fyrir erfitt ástand í þjóðfélaginu þar sem um 85% byggingarmarkaðarins hafi hrunið, þá sé Eykt enn með nærri 100 starfsmenn í vinnu.