Ómar Benediktsson, forstjóri Farice, sem rekur sæstrengi landsins, var með tæpar 23,5 milljónir króna í laun á síðasta ári. Þetta jafngildir um rúmum 1,9 milljónum króna í mánaðarlaun. Farice gerir upp í evrum. Það sama gildir um laun Ómars sem var með laun upp á 145 þúsund evrur í fyrra. Þetta er 10 þúsund evrum minna en Guðmundur Gunnarsson, forveri Ómars í forstjórastólnum, fékk árið 2011.

Guðmundi var sagt upp í lok árs 2011 og voru gerð upp við hann sex mánaða laun í tengslum við starfslok hans. Uppgjör vegna ársins 2010 gefa betri mynd af launum Guðmundar en þá námu þau í heildina tæpum 100 þúsund evrum, jafnvirði 16 milljóna króna á árinu öllu. Það gerðu um 1,3 milljónir króna á mánuði.

Fram kemur í uppgjöri Farice fyrir síðasta rekstrarár að starfsmenn Farice voru fjórir í fyrra. Heildarlaun til þeirra námu 342.461 evru í fyrra. Það gera 55,5 milljónir króna á mann eða  rúma 1,1 milljón króna að meðaltali á hvern starfsmann á mánuði.

Í eigu ríkisins

Eignarhaldsfélag Farice gat ekki staðið við skuldbindingar í fyrravor og varð ríkið að koma fyrirtækinu til bjargar með þjónustusamningi til fimm ára. Samningurinn kostaði ríkissjóð 355 milljónir króna. Við fjárhagslega uppstokun á rekstri Farice og við kaup stærri hluthafa í fyrrahaust varð breyting á hluthafahópi fyrirtækisins. Í dag á Arion banki 39,3% hlut í Farice, ríkissjóður á 30% hlut og Landsvirkjun 29%. Ríkið á því beint og óbeint 59% hlut í Farice.