Forstjóri tískuvöruverslunarinnar French Connection (FCUK), Stephen Marks, ítrekaði á miðvikudag að hann muni ekki taka þátt í yfirtökuviðræðum á fyrirtækinu fyrr en það verði komið aftur á réttan kjöl, segir í frétt The Times. Tap French Connection nam 474 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins og sala dróst saman um 6% á tímabilinu, en fyrirtækið hefur ekki verið rekið með tapi í 14 ár.

Fjárfestingasjóðurinn Unity Investment, sem er í eigu Baugs, FL Group og breska athafnamansins og stofnanda Karen Millen, Kevin Stanford, á 19,6% hlut í FCUK. Baugur hefur lengi verið orðaður við yfirtöku á fyrirtækinu og hefur það haldið gengi hlutabréfa í French Connection á lofti, segir í fréttinni. Marks segir að hann hafi ekki fundað með Baugi sérstaklega fyrir utan eðlilega hluthafafundi.

Sala hefur verið að aukast hjá fyrirtækinu að undanförnu, en hún jókst um 2,4% á tímabilinu maí-júlí og hafði aukist um 9% á fyrstu þremur vikunum eftir að vetrartískan var sett í hillurnar. Greiningaraðilar telja að þrátt fyrir að sala sé að aukast, muni bataferli fyrirtækisins taka mun lengri tíma þar sem viðskiptavinir séu enn með varann á gagnvart vörumerkjum fyrirtækisins.