Heimskulegt væri af bílaiðnaðinum að hunsa þá þróun sem nú á sér stað innan Google og Apple að mati forstjóra Fiat-Chrysler, Sergio Marchionne. Í frétt BBC er haft eftir honum að þessi tvö fyrirtæki séu mjög metnaðargjörn þegar komi að bifreiðamálum og að þróun þeirra í átt að sjálfstýrðum rabílum gæti haft mikil áhrif á iðnaðinn allan.

Marchionne er, eins og flestir mikils metandi menn í bílaiðnaði, á bílasýningunni í Genf og lét þessi orð þar falla.

Hann sagði að það væri alltaf jákvætt þegar hrist væri upp í geiranum, en viðurkenndi að það væri ekki alltaf þægilegt að vera sá sem hristur er.

Apple er nú með nokkur hundruð manns í vinnu við bílaverkefni sem fengið hefur nafnið Titan og Google hefur um nokkurt skeið unnið að sjálfstýrðum bifreiðum. Marchionne sagði þó að fyrirtækin tvö ættu ekki að vanmeta hæfileika hefðbundinna framleiðenda til að bregðast við breyttum aðstæðum.