Ekki er talin sérstök ástæða til að draga í efa hæfi Gunnars Þ. Andersen til að gegna skyldu sinni sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME) þrátt fyrir aðkomu hans að aflandsfélögum tengdum Landsbankanum og Kaupþingi. Þetta segir í álitsgerð Andra Árnasonar lögmanns um hæfi Gunnars.

Stjórn FME sendi álitsgerðina til fjölmiðla eftir umfjöllun Kastljóss í gær.

Í álitsgerðinni kemur fram að ekki sé dregið í efa að stofnun aflandsfélags var lögleg sem slík og reyndar alþekkt í alþjóðlegum viðskiptum. Þá verði einnig að telja óyggjandi að Gunnar hafi ekki komið að gerð ársreikninga Landsbankans eða annarra atriða sem vörðuðu afmörkun á eigin fé bankans.

Þá segir í álitsgerðinni að hefði komið til rannsóknar FME á umræddum tíma þá hefði hún væntanlega ekki lotið að umræddum aflandsfélögum sem slíkum heldur því hvort meðferð á eigin fé hafi samræmst íslenskum lögum.