Rekstur viðskiptabankanna gekk vel á síðasta ári og nam samanlagður hagnaður þeirra eftir skatta tæpum 66 milljörðum króna samanborið við 30 milljarða árið 2011, en enn eru ákveðin atriði sem valda óvissu. Kemur þetta fram í ávarpi Unnar Gunnarsdóttur, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, í ársskýrslu FME en ársfundur eftirlitsins var haldinn í dag.

„Eiginfjárhlutföll þeirra eru einnig há í alþjóðlegum samanburði eða um 25% í árslok 2012. Lausafjárstaða þeirra er góð og eru um 17% af heildareignum þeirra skilgreind sem laust fé. Ákveðin atriði valda þó óvissu. Þar má nefna vafa um gæði útlánasafna, óróa á erlendum mörkuðum og óvissu sem tengist fyrirhuguðu afnámi fjármagnshafta.“

Þá segir hún ekki öll kurl vera komin til grafar varðandi útlán tengd erlendum myntum en dregið hafi úr óvissu sem þeim tengjast með þremur Hæstaréttardómum sem féllu á miðju ári 2012.

„Ennfremur er það áhyggjuefni að enn eru fjórtán slitastjórnir að störfum fyrir kröfuhafa gjaldþrota fjármálafyrirtækja. Þessi slitafyrirtæki eiga eignarhluti í starfandi fjármálafyrirtækjum sem ríkissjóður á jafnframt hlut í. Framundan er söluferli þessara fjármálafyrirtækja. Mikilvægur þáttur í því að endurheimta fjárhagslegt heilbrigði er að því ferli verði lokið með hagkvæmum og skilvirkum hætti,“ segir Unnur.