Gunnar Þ.Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins gerir alvarlegar athugasemdir við umfjöllun Kastljóss í gærkvöldi og hefur af því tilefni sent fjölmiðlum bréf.

Í upphafi þess segir: "Ekki þarf að koma á óvart að nú þegar styttist í útgáfu fyrstu ákæruskjala í kjölfar bankahrunsins skuli gæta titrings í röðum þeirra sem þar eiga hlut að máli. Því hafði verið spáð. Þannig lítur út fyrir að þegar sé hafin herferð til þess að gera einstaka embættismenn og stofnanir þeirra ótrúverðugar og reyna jafnvel með þeim hætti að ónýta rannsóknir.

Mikilvægt er að skoða í því samhengi þann Kastljósþátt sem sendur var út fimmtudagskvöldið 17. nóvember síðast liðinn, þar sem fjallað var um hæfi undirritaðs til þess að gegna starfi forstjóra FME. Það er hins vegar athyglisvert að Ríkissjónvarpið skuli láta eftir sviðið til óheftra mannorðsmorða, sérstaklega í ljósi þess að ekkert nýtt var að finna í umræddri umfjöllun. Hæfi undirritaðs hefur þegar verið skoðað ofan í kjölinn og voru engar athugasemdir gerðar við það.

Það var aðallega af þeirri ástæðu sem undirritaður sá ekki ástæðu til þess að mæta í þennan Kastljósþátt enda treysti ég alla jafna hlutlægri og hlutlausri umfjöllun útvarps allra landsmanna. Því var svo sannarlega ekki að heilsa að þessu sinni. Kjarni umfjöllunarinnar virtist vera að sá efasemdafræjum vegna stjórnarsetu undirritaðs, fyrir u.þ.b. áratug, á vegum Landsbanka Íslands, löngu fyrir einkavæðingu, í tveimur nafngreindum aflandsfélögum. Sannleikurinn er sá að ekkert refsinæmt liggur fyrir, hvorki af hálfu félaganna né vegna stjórnarsetu undirritaðs í þeim."