Erfiðara er að manna stjórnir fjármálafyrirtækja eftir að Fjármálaeftirlitið (FME) hóf að meta hæfi stjórnarmanna, að sögn Unnar Gunnarsdóttur, forstjóra FME. Hún segir í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag, að viðtölin hafi skilað því að stjórnarmenn geri sér betur grein fyrir ábyrgð sinni og skyldum og vinnubrögðin batnað. Á hinn bóginn séu sumir stjórnarmenn ekki tilbúnir til að koma í viðtal. Þá eru dæmi um að einhverjir hafi hætt í stjórnum fyrirtækja áður en til viðtalsins kom eða vilja ekki fara aftur.

„Frá ráðgjafarnefndinni hef ég heyrt að þeim hefur fundist eftirsjá að einhverjum sem vildu ekki koma aftur eftir að hafa ekki staðist viðtalið í fyrsta skiptið. Nefndinni þótti borðleggjandi að sá eða þeir hefðu aðeins þurft að undirbúa sig örlítið betur og ættu erindi í stjórn,“ segir Unnur og bætir við að ljóst sé að viðtölin hafi leitt til þess að einhverjir sem voru vanhæfir til stjórnarsetu hafi hætt. Hins vegar sé ákveðin hætta á að fleiri víki vegna þeirra.

Spurð að því hvort það sé jákvætt svarar hún:

„Nei, þess vegna erum við ánægð að sjá núna, þegar meiri reynsla er fengin, að okkur þykir fyrirstaðan minni heldur en áður hjá stjórnarmönnum að mæta til viðtals.“