Smíði frumvarps um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki eru á lokastigi í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Með því á að lögfesta nýjar leikreglur á íslenskum fjármálamarkaði. Meðal þess sem þar verður tekið á er starfsemi erlendra starfstöðva banka á borð við Icesave, ábyrgð stjórna og veðsetning hlutabréfakaupa. Auk þess verða heimildir Fjármálaeftirlitsins (FME) og Seðlabankans til að sinna sínum lögboðnu eftirlitshlutverkum auknar til muna.

„Þessar breytingar á lögum og þessi nýju ákvæði gefa okkur meiri heimildir. Það ætti að gera okkur auðveldara að sinna eftirlitinu,“ segir Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, um fyrirhugaðar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki í viðtali við Viðskiptablaðið. Hann segir breytingarnar vera mjög mikilvægar. „Þarna eru atriði sem snúa til dæmis að hæfi forstjóra og stjórnarmanna, að hæfi innri endurskoðenda og kröfur um virkni í áhættustýringu sem eru mikilvæg. Svo skiptir bann við að taka veð í eigin bréfum miklu máli. Það var búið að misnota slíkt mikið hér.“

Gunnar telur að bann við veðtöku í eigin bréfum hefði mögulega getað mildað bankahrunið sem átti sér stað hér í fyrrahaust ef slíkt bann hefði verið í lögum. „Það voru mörg útlán sem voru ónýt, meðal annars til hinna svokölluðu eignarhaldsfélaga sem tóku stór lán, vegna þess að lánveitandinn tók veð í bréfunum sjálfum. Þetta er kannski ekki séríslenskt en að taka veð í bréfum sem verið var að lána fyrir kaupum á er ekki stundað í löndunum í kringum okkur sem við berum okkur saman við. Ef þetta hefði ekki verið leyfilegt þá hefði það minnkað höggið sem við urðum fyrir umtalsvert þó að það hefði ekki komið í veg fyrr allt hitt sem átti sér stað hér.“

Nýjar leikreglur á íslenskum fjármálamarkaði

  1. Fjármálaeftirlitinu verður veitt heimild til að takmarka starfsemi starfstöðva fjármálafyrirtækja.
  2. Fjármálafyrirtækjum verður ekki leyfilegt að núvirða skuldir til að auka eiginfjárhlutfall sitt.
  3. Fjármálafyrirtækjum verður ekki leyfilegt að telja skattalegt tap til eiginfjár.
  4. Hæfisskilyrði og ábyrgð endurskoðenda fjármálafyrirtækja verða aukin til muna.
  5. Hæfisskilyrði og ábyrgð innri endurskoðenda fjármálafyrirtækja verða aukin til muna.
  6. Ábyrgð stjórna fjármálafyrirtækja gagnvart áhættustýringum verður aukin til muna. Þess verður krafist að stjórnarmenn verði vel með á nótunum í áhættustýringu fjármálafyrirtækjanna og endanleg ábyrgð stjórnarmannanna verður skýrð.
  7. Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fá auknar heimildir til að meta stórar áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækja í einstökum fyrirtækjum og eins þá kerfislægu áhættu sem áhættuskuldbindingin gæti haft í för með sér.
  8. Fjármálaeftirlitið fær heimild til þess að krefja aðra aðila en þá sem eru undir beinu eftirliti þess um upplýsingar um stórar áhættuskuldbindingar.
  9. Fjármálaeftirlitið fær auknar heimildir til að setja reglur um heilbrigðari viðskiptahætti.
  10. Fjármálaeftirlitið fær auknar heimildir til að setja fjármálafyrirtækjum skorður með því að láta þau afsetja (selja) eignir krefjist eftirlitið þess.
  11. Takmarkað verður hversu mikið fjármálafyrirtæki mega taka af hlutabréfum eða stofnfjárbréfum sem veð fyrir lánum.
  12. Tekið verður fyrir það með öllu að fyrirtækjum eða félögum verði veitt lán til kaupa á hlutabréfum í fjármálafyrirtæki með veði í hlutabréfunum sjálfum.
  13. Ekki verður hagkvæmt fyrir fjármálafyrirtæki að halda á mikið af kúlulánum.
  14. Ekki verður hagkvæmt fyrir fjármálafyrirtæki að lána fyrirtækjum í erlendum myntum ef að þau eru ekki með erlendar tekjur á móti þeim lánum.

Ítarlega fréttaskýringu um ný lög um fjármálafyrirtæki er að finna í nýjasta tölublað i Viðskiptablaðsins.