„Mér sýnist að markaðsmisnotkun hafi verið nokkuð víðtæk og að hún hafi ekki verið takmörkuð við ár hrunsins 2008, heldur nær hún lengra aftur í tímann," segir Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segist þarna vera að vísa til tilrauna fjármálafyrirtækja til að hafa áhrif á gengi hlutabréfa með ýmsum hætti. Inntur eftir því hverjir hafi verið í slíkri markaðsmisnotkun segist hann ekki geta nefnt nein nöfn en „þau tengjast einum eða fleiri bönkum," svarar hann.

Þá segir hann fræðilegan möguleika á því að reynt hafi verið að hafa áhrif á hlutabréf annarra fyrirtækja en fjármálafyrirtækja. „Við skoðum það ef slíkt tengist eftirlitsskyldum aðila."

Markaðsmisnotkun varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum.

Gunnar var ráðinn forstjóri FME um miðjan apríl. Síðan þá hafa um fimmtán mál sem tengjast rannsókn á bankahruninu verið send áfram til sérstaks saksóknara. Um helmingur þeirra mála tengist markaðsmisnotkun eða innherjaviðskiptum. Alls hefur FME sent um tuttugu mál til saksóknara frá hruninu.

„Þau eru misstór en öll nokkuð stór. Sum ótrúlega stór," segir hann um málin sem tengjast markaðsmisnotkuninni „Við erum hins vegar að skoða fleiri mál, í þessum töluðum orðum, sem tengjast markaðsmisnotkun. Þegar upp er staðið gætum við því verið að tala um fleiri tugi slíkra mála."

Ein stór bóla

Þegar Gunnar er spurður hvort markaðurinn hafi þá nokkuð verið marktækur hafi slík víðtæk markaðsmisnotkun átt sér stað svarar hann: „Þetta virðist hafa verið það umfangsmikið - og hafði það mikil áhrif á markaðinn - að það lítur út fyrir að hann hafi ekki verið marktækur á köflum."

Var þá markaðurinn, þegar upp er staðið, bara einhver bóla?

„Já, það gæti vel verið að á löngu tímabili hafi hann bara verið bóla eins og svo margt annað. Við megum ekki gleyma því að eftirspurnin var drifin áfram af lánsfé í mörg ár. Mikið af ódýru lánsfé, sem allir höfðu aðgang að, var meðal annars notað til að kaupa hlutabréf. Þetta var ein stór bóla."

Nánar er rætt við Gunnar Þ. Andersen í Viðskiptablaðinu í dag.