*

föstudagur, 15. nóvember 2019
Erlent 24. apríl 2017 10:06

Forstjóri framtíðarinnar gæti verið vélmenni

Jack Ma, stofnandi Alibaba, segir að við gætum séð vélmenni á forsíðu Time Magazine, sem besta forstjórann.

Ritstjórn
epa

Jack Ma, stofnandi og stjórnarformaður Alibaba, spáir því að tæknin gæti gert forstjóra fyrirtækja óþarfa í náinni framtíð. „Eftir 30 ár er það líklegt að vélmenni prýði forsíðu Time Magazine sem besti forstjórinn,“ sagði Ma á tækniráðstefnu í Kína. Þetta kemur fram í frétt CNN.

Hann er nokkuð uggandi yfir stöðu heimsins og telur að mannfólkið sé ekki nógu vel undirbúið fyrir þær tækniframfarir sem koma skulu. „Á næstu þremur áratugum mun heimurinn upplifa talsvert meiri sársauka en hamingju,“ sagði Ma enn fremur og bætti við að það sé nauðsynlegt að bæta menntakerfi heimsins til að börn yrðu meira forvitin og skapandi, svo þau geti betur tekist á við framtíðina.

Vélmenni verða fljótari og skynsamari en mennirnir, að sögn stofnanda Alibaba, enn fremur eru vélmenni þeim kostum gædd að þau reiðast ekki keppinaut sínum og eru gjörsamlega sneidd mennskum tilfinningum. Ma er þó bjartsýnn á að ef litið er til lengri tíma komi vélmenni til með að gera lífið betra. „Vélar geta gert það sem við mennirnir geta ekki gert. Vélarnar munu vera samstarfsaðilar og vinna með okkur mönnunum en verða ekki óvinir okkar,“ bætti hann við.