Mary Barra, forstjóri General Motors, fær greiddar 14,4 milljónir bandaríkjadala í ár. Það jafngildir rúmum 1,6 milljarði íslenskra króna og er 60% meira en forveri hennar, Dan Akerson, fékk árið 2012. Hann fékk 9 milljónir dala það árið, eftir því sem BBC greinir frá.

Áður hafði verið greint frá því að Barra fengi 4,4 milljónir dala í reiðufé og hlutabréf í ár. Inni í þeirri greiðslu voru ekki langtímabónusar.

Fyrir fáeinum dögum var General Motors gagnrýnt fyrir að borga Barra of lág laun vegna þess að hún væri kona. General Motors ákvað því að birta upphæð launanna til að „leiðrétta misskilning“ eins og segir á vef BBC.

Barra tók við starfi sínu 15 janúar síðastliðinn. Hún er fyrsta konan til að gegna starfinu.