*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 20. nóvember 2011 20:39

Bankastjóri hættir í stjórn og Horn á markað

Stefnt er að skráningu Horns fjárfestingafélags í kauphöll á næstu viku. Breytingar hafa verið gerðar í stjórn vegna þessa.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Fyrirhuguð er skráning Horns á markað á næstu vikum og er undirbúningur að skráningu langt á veg kominn, að því er kemur fram á vefsíðu Horns. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á stjórn félagsins, sem er í eigu Landsbankans. Guðrún Ragnarsdóttir hefur sagt sig úr stjórninni samhliða tilnefningu hennar í stjórn Bankasýslunnar og þá hefur Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans einnig sagt sig úr stjórninni. Er það gert til að draga úr beinum tengslum Landsbankans og Horns, að því er segir í frétt á vefsíðu Horns.

„Frans Páll Sigurðsson, framkvæmdastjóri Fjármála í Landsbankanum er því eini fulltrúi bankans í stjórn Horns en fjórir eru óháðir; þau Ragnhildur Geirsdóttir, Guðrún Björg Birgisdóttir, Hilmar Ágústsson og Sigurbjörn Jón Gunnarsson sem gegnir stjórnarformennsku. Þá hefur Landsbankinn tilnefnt Bergþór Björgvinsson sem varamann í stjórn Horns,“ segir í fréttinni.

„Fyrirhuguð er skráning Horns á markað á næstu vikum. Undirbúningur að skráningu er langt kominn og hluti hennar felst í tilfærslum á eigum Horns til Landsbankans til að tryggja gott jafnvægi í eignum félagsins. Meðal þeirra eigna sem seldar hafa verið til Landsbankans að undanförnu eru 29,6% hlutur í fasteignafélaginu Reitum hf. og 13,75% hlutur Eyrir Invest ehf. sem báðar voru seldar til Landsbankans á bókfærðu virði Horns eins og það var þann 30. september síðastliðinn. Þessar tilfærslur hafa engin áhrif á afkomu Horns eða Landsbankans. Horn seldi auk þess 3,8% hlut í Össuri hf. til Landsbankans á markaðsverði en einnig hefur Horn keypt eigin hluti að andvirði 9 ma.kr. af Landsbankanum.“