Tillaga verður borin upp á á ársfundi Gildis lífeyrissjóðs um að sjóðurinn beiti sér fyrir því að mánaðarlaun forstjóra Haga fari ekki upp fyrir 3 milljónir króna. Lífeyrissjóðurinn er einn stærsti eigandi Haga.

Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda hefur lagt fram tillöguna sem snýr að ákvæði í samskipta og siðareglum fyrir stjórn og starfsmenn Gildis. Verði hún samþykkt sem ályktun frá ársfundinum verður fulltrúa Gildis í stjórn Haga falið að bera fram eftirfarandi tillögu á næsta stjórnarfundi Haga.

Tillagan er svohljóðandi:
„Stjórn Haga samþykkir að ráðningasamningur við forstjóra fyrirtækisins verði tekinn til endurskoðunar þannig að mánaðarleg laun, hlunnindi og árangurstengdar þóknanir fari ekki umfram 3,0 milljónir. Jafnframt verði ráðningasamningar annarra stjórnenda fyrirtækisins teknir til endurskoðunar þar sem sambærilegar greiðslur verði innan hóflegra marka.“

Forstjóri Haga er nú með um 8 milljónir króna í mánaðarlaun.