Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, er ekki bjartsýnn á að Íslendingar geti samið um sérlausn í sjávarútvegsmálum komi til þess að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu.

„Mönnum tókst ekki að semja sig í gegnum síðasta slaginn sem við áttum við ESB," segir hann og vísar til Icesave-málsins. „Þar höfðu menn góð orð um það í byrjun að hægt yrði að semja sig í gegnum það mál. Síðan fengum við bara fyrirmæli um það hvernig við ættum að gera þetta. Ég held því að það sé mjög óraunsætt að halda að við munum breyta mikið leikreglum Evrópusambandsins."

Eggert Benedikt ræðir Evrópusambandsmál, áhrif kreppunnar á sjávarútveginn, skuldir greinarinnar og fleiri mál í samtali við Viðskiptablaðið, sem kemur út á morgun. Hann segir meðal annars að sitt fyrirtæki HB Grandi hafi ekki beint liðið fyrir fjármálakreppuna hér á landi.

Veiking krónunnar hafi þó orðið til þess að skuldirnar hafi rokið upp úr öllu valdi í krónum talið. Það líti því illa út í bókunum. Á móti komi hins vegar að skuldirnar séu greiddar með tekjum í erlendri mynt. Þetta jafnist því út.

Á sama tíma er þó ljóst, segir hann, að íslensku bankarnir munu hafa takmarkaða getu til að fjármagna ný verkefni.

Sjá nánar Viðskiptablaðið, fimmtudaginn 11.desember. Áskrifendur geta lesið Viðskiptablaðið í heild sinni á vefnum.