Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, var með 187 þúsund evra árslaun á síðasta ári. Það jafngildir um 31,1 milljón krónum á núverandi gengi, eða um 2,6 milljónir króna á mánuði.

Þetta kemur fram í ársskýrslu félagsins. Aðalfundur HB Granda var haldinn síðastliðinn föstudag.

Laun Árna Vilhjálmssonar, stjórnarformanns HB Granda, námu 14 þúsundum evra eða um 2,3 milljónum króna á síðasta ári. Þeir Kristján Loftsson, halldór Teitsson og Hjörleifur Jakobsson fengu greiddar 5.000 evra fyrir stjórnarsetu á síðasta ári. Hjörleifur er nú gengin úr stjórninni. Stjórnarlaun Hönnu Ásgeirsdóttur námu 2000 evrum.

Fram kemur að stjórnarlaun að fjárhæð 5 þúsund evrur voru greidd til Arion banka, en Iða Brá Benediktsdóttir tók sæti í stjórn á síðasta ári fyrir hönd bankans, eftir að bankinn eignaðist þriðjungshlut í félaginu. Arion banki eignaðist hlutinn í október í tengslum við skuldauppgjör Kjalars.