Carly Fiorina, forstjóri og stjórnarformaður bandaríska tölvuframleiðandans HP, tilkynnti á miðvikudag að hún segði af sér báðum störfunum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu. Þar kemur fram að Robert Wayman, fjármálastjóri HP, muni taka tímabundið við forstjórastarfinu og Patricia Dunn tekur við embætti stjórnarformanns.

Í yfirlýsingu HP er haft eftir Fiorina að hún harmi það að hún og stjórnin hafi ekki verið sammála um það hvernig ætti að framfylgja markaðsáætlunum HP en hún virði ákvörðun fyrirtækisins. Orðrómur hefur gengið um að stjórn fyrirtækisins hafi verið mjög óánægð með störf forstjórans á undanförnum mánuðum en Fiorina sagði á blaðamannafundi að svo væri ekki, stjórnin væri ánægð en skiptar skoðanir væru þó á hvernig reka ætti fyrirtækið.