HSBC bankinn í Bretlandi hefur staðfest að Stuart Gulliver, forstjóri bankans, sé með bankareikning í Sviss til þess að halda utan um bónusgreiðslur. BBC News greinir frá þessu.

HSBC bankinn hefur legið undir ámæli undanfarnar vikur fyrir að hafa aðstoðað viðskiptavini sína að komast hjá skattgreiðslum með geymslu fjármuna í Sviss.

Greint var frá því í Guardian í gær að Gulliver væri með leynilegan reikning í Sviss sem hann stýrði í gegnum félag í Panama, en þó er ekki minnst á félagið í tilkynningu bankans.  Jafnframt kemur fram í fréttinni að Gulliver geymi allt að fimm milljónum punda inn á reikningnum. Ekki hefur hins vegar verið staðfest að Gulliver hafi komist hjá skattgreiðslum með geymslu fjármunanna á bankareikningnum.

Benti bankinn hins vegar á að Gulliver búi í Hong Kong og greiði skatta þar og í Bretlandi.