„Hugsanlega getum við dregið eitthvað af uppsögnum til baka. En þetta er annars konar mannsskapur,“ segir Karl Þráinsson, forstjóri ÍAV. Hann útilokar ekki að einhver hluti þeirra 40 starfsmanna fyrirtækisins sem sagt var upp í lok september verði ráðinn aftur.

Uppsagnir voru í tengslum við lok framkvæmda við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu. Haft var eftir Karli í fjölmiðlum í kjölfarið að ekki væri nóg af verkum í boði fyrir starfsfólk fyrirtækisins og því hafi þurft að grípa til þessara ráða.

ÍAV og svissneska verktakafyrirtækið Marti áttu saman lægsta tilboðið í gegn Vaðlaheiðarganga. Tilboð voru opnuð í vikunni. Áætlað er að framkvæmdir standi yfir til ársins 2015.

„Við þurfum að setjast niður og klára samninga áður en við getum tekið ákvörðum um þetta,“ segir Karl en leggur áherslu á að annars konar mannsskap þurfi í gerð jarðganga en húsasmíði.

ÍAV átti lægsta tilboð í gerð Héðinsfjarðarganga árið 2003. Áður en Vegagerðin tók afstöðu til tilboðanna var hætt við framkvæmdir á sínum tíma.