Laun Sigurðar Erlingssonar, forstjóra Íbúðalánasjóðs, hækka um rúm 79 þúsund krónur eða um rúm 7,2% og verða tæpar 1,2 milljónir króna á mánuði, samkvæmt úrskurði kjararáðs.

Í Fréttablaðinu í dag segir frá því að laun Sigurðar voru rúmar 982 þúsund krónur á mánuði þegar kjararáð ákvað um mitt síðasta ár að hækka þau um 110 þúsund krónur í 1.092 þúsund krónur á mánuði. Sigurður taldi hækkunina ekki endurspegla auknar kröfur sem gerðar eru til forstjóra sjóðsins og sendi hann kjararáði bréf skömmu eftir launahækkunina og fór fram á að launin yrðu endurskoðuð. Rök hans voru m.a. þau að lögfestar hafi verið kröfur um að forstjóri skuli vera fjárhagslega sjálfstæður, hafa lokið háskólaprófi og þurfi að standast hæfismat Fjármálaeftirlitsins. Þá taldi hann ekki standast að laun forstjóra miðist við launakjör framkvæmdastjóra Lánasjóðs íslenskra námsmanna eða forstjóra Byggðastofnunar. Undir þetta tók kjararáð að hluta.

Laun forstjóra Íbúðalánasjóðs hafa þessu samkvæmt hækkað um 189 þúsund krónur eða 19,3% frá árinu 2010, að því er fram kemur í Fréttablaðinu.