Forstjóri Icebank, Agnar Hansson, segir grunnrekstur bankans í lagi og umtal um gjaldþrot ósannindi.

Í gær fór í gang orðrómur um að bankinn yrði sá fyrsti á Íslandi til að verða gjaldþrota, í kjölfar birtingar bloggfærslu á netinu.

„Eins og aðstæður eru núna getur blogg á borð við þetta breiðst út eins og eldur í sinu. En ekki þarf að líta lengi á efnahagsreikning okkar til að gera sér grein fyrir því hvað Icebank er í raun og veru. Okkar viðskiptavinir eru fyrst og fremst aðrir bankar, og 70% af efnahagsreikningnum eru kröfur á aðra banka. Því held ég að megi álykta sem svo að ef bankagjaldþrot yrðu á Íslandi, yrði Icebank ekki fyrstur banka. Því er þó ekki að neita að við sem heildsölubanki erum með mesta áhættu gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

„Grunnrekstur okkar stóð vel í uppgjöri annars fjórðungs. Við höfum afskrifað um fjóra milljarða á þessu ári en vonum að við séum komnir yfir það versta,“ segir Agnar, og segist binda vonir við að afskriftir á þriðja fjórðungi verði minni en á tveimur undangengnum.

„Staðan er bara svona í dag. Þarna er strákur, með fullri virðingu fyrir honum, sem birtir einhvern orðróm á blogginu sínu. Á einum klukkutíma heyri ég síðan í forsætisráðuneytinu, Seðlabankanum, fjármálaeftirlitinu og ýmsum hagsmunaaðilum. Þetta er nokkuð sem aldrei hefði gerst í venjulegu árferði; að menn rjúki upp til handa og fóta vegna einhvers svona. Þarna sést hversu viðkvæmt ástandið er, en menn verða að halda ró sinni og láta ekki fjaðrir verða að heilum hænum,“ segir Agnar.