„Við missum ekki svefn yfir þessu,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóri Iceland Express. Hann segir forsvarsmenn félagsins hafa vitað af því í alllangan tíma að breska lággjaldaflugfélagið easyJet hafi á takteinum að fljúga á milli Íslands og Bretlands næsta sumar og því komi tilkynning þessa efnis frá í morgun ekki á óvart.

Skarphéðinn segir ákvörðun easyJet hafa einhver áhrif á Iceland Express. Erfitt sé að segja til um hver þau verði.

Skarphéðinn segir fátt koma sér á óvart með flug easyJet hingað að undanskildu því að flugfélagið ætli aðeins að fljúga á milli landanna þrisvar í viku yfir sumartímann.

„Það breytir ekki miklu fyrir okkur. Maður hefði átt von því að þeir kæmu hingað með meira afgerandi hætti eins og þeir eru vanir annars staðar,“ segir hann og leggur áherslu á að tiltölulega auðvelt sé að halda úti flugi til og frá Íslandi á sumrin. Erfiðast sé að halda úti flugi hingað allt árið um kring.