Kauphöll Íslands telur fyllilega færar mun skilvirkari leiðir við losun gjaldeyrishafta en þá kostnaðarsömu leið sem felst í fyrirliggjandi áætlun um losun gjaldeyrishafta. Þetta segir Páll Harðarson, forstjóri NASDAQ OMX Iceland, í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu. Hann segir að viðvarandi höft stuðla að stöðnun efnahagslífsins. Höftin veiti bæði stjórnvöldum og mörgum öðrum „skjól“ til að haga hlutum með öðrum og óhagkvæmari hætti en ef haftanna nyti ekki við.

Páll segir að takmörkuð þátttaka í evruútboðum Seðlabankans sé vísbending um að langstærstur hluti aflandskrónueigenda sé þolinmóður og hafi engan áhuga á því að selja krónur á því verði sem býðst í útboðunum. „Ein möguleg skýring kann að vera sú að flestir þeir sem á annað borð vildu losna hafi þegar selt krónur sínar aðilum sem trúa á styrk íslensks efnahagslífs,“ segir Páll.

Þá segir Páll að höftin veiti stjórnvöldum skjót til að viðhalda óvissu um sjávarútveginn og draga úr hagkvæmni í greininni án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að skerðing á samkeppnishæfni þjóðarbúsins auki fjármögnunarkostnað ríkisins eða veiki gengi krónunnar í bráð. Hann spyr hvort að þjóðin vilji þess konar skjól?

„Neyðarástandið sem réttlætti setningu gjaldeyrishafta er löngu liðið og höftin eru að líkindum þegar farin að hafa marktæk neikvæð áhrif á hagvöxt. Skjólið hefur snúist upp í andhverfu sína. Áframhaldandi höft eru ávísun á skerðingu lífsskjara,“ segir í niðurlagi greinarinnar.

Greinina má lesa í heild sinni hér .