„Við lokum hlutabréfamarkaðnum fram yfir helgi en höfum skuldabréfamarkaðinn opinn,“ segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, í samtali við Viðskiptablaðið.

Fyrir opnun markaða síðastliðinn mánudag voru viðskipti  með sex fjármálafyrirtæki í Kauphöllinni stöðvuð. Þau vigtuðu 82% af Úrvalsvísitölunni. Fyrirtækin eru Exista, Glitni, Kaupþingi, Landsbankanum, Straumi-Burðarási og Spron. Í vikunni hefur Fjármálaeftirlitið tekið við stjórnartaumum viðskiptabankanna þriggja; Glitni, Kaupþings og Landsbankans. Nú hefur hlutabréfamarkaðnum í heildinni verið lokað.

„Við höfum áhyggjur af smiti frá fjármálakerfinu yfir á þau fyrirtæki sem ekki eru í fjármálageiranum. Við höfum áhyggjur af því að það geti ekki verið eðlileg verðmyndun á markaði við þessar aðstæður og viljum gefa mönnum andrými til þess að meta stöðuna fram að helgi. Fyrir utan það að það eru ýmsir tæknilegir vankantar sem verið er að leysa úr í bankakerfinu,“ segir Þórður.