*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 3. maí 2013 11:23

Forstjóri KEA segir fáa fjárfestingarkosti í boði

Hagnaður KEA nam 280 milljónum í fyrra. Þetta er 70% aukning á milli ára. Félagið situr á háum fjárhæðum.

Ritstjórn
Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA.
Hörður Kristjánsson

Hagnaður KEA nam 279 milljónum króna í fyrra. Þetta er rúmlega 70% meiri hagnaður en í hittifyrra en hagnaður KEA nam 160 milljón króna árið 2011. Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, segist í uppgjöri sáttur við niðurstöðuna í ljósi aðstæðna á fjárfestingamarkaði. Hann bendir þó á að vandkvæðum sé bundi að ná ásættanlegri raunávöxtun á laust fé. Unnið hafi verið að því að afla fjárfestingavalkosta sem mæta stefnu félagsins en framboð verkefna verið með minna móti.

„Þessi staða hefur áhrif á verðþróun eigna til hækkunar vegna takmarkaðs framboðs en án þess að verðmætaaukning í undirliggjandi rekstri hafi átt sér stað. Það er fátt sem bendir til þess að þetta muni breytast í bráð og því verður áfram krefjandi verkefni að ná góðri ávöxtun á eignir félagsins,“ segir Halldór. 

Sitja á 4,6 milljörðum

Fram kemur í uppgjöri KEA að tekjur námu 443 milljónum króna í fyrra samanborið við 280 milljónir árið 2011. Í uppgjöri síðasta árs segir að aukninguna megi að stórum hluta rekja til þess að fasteignarekstur KEA er nú í samstæðuuppgjöri þess. 

Heildareignir KEA námu um síðustu áramót fimm milljörðum króna borið saman við rétt tæplega 4,5 milljarða í lok árs 2011. Eigið fé nam á sama tíma rúmum 4,6 milljörðum króna borið saman við tæpa 4,4 milljarða árið 2011. Óráðstafað eigið fé KEA nam um síðustu áramót rúmum 4,6 milljörðum króna.  

Uppgjör KEA

Stikkorð: KEA Halldór Jóhannsson