Chang Xiaobing, sem nýlega var gerður að forstjóra kínverska ríkissímafyrirtækisins China Telecom, hefur nú bæst í hóp hátt settra Kínverja sem hafa horfið eins og dögg fyrir sólu. Kínversk stjórnvöld vinna nú hörðum höndum að baráttu gegn spillingu og er talið að Xiaobing og fleiri hafi verið handteknir.

Kínverska tímaritið Caijing greindi frá því í dag að Xiaobing væri týndur og að ekki væri hægt að ná í hann. Er því haldið fram að hann hafi verið handtekinn vegna meintrar spillingar og fylgir fréttinni mynd sem á að sýna að skrifstofa hans hefur verið innsigluð vegna rannsóknarinnar.

Önnur grein frá Thomson Reuters Trust segir að spillingarrannsóknarnefnd Kína segi í yfirlýsingu á vefsíðu sinni að Xiaobing sé grunaður um alvarleg agabrot í starfi. Virðist svo vera sem hann hafi sviplega verið handtekinn líkt og svo margir aðrir kínverskir ráðamenn. China Telecom er eitt stærsta fjarskiptafyrirtæki Kína, en Xiaobing var gerður að forstjóra og stjórnarformanni í september.

Frægasti Kínverjinn sem skyndilega hvarf er milljarðamæringurinn Guo Guangchang, sem stundum er kallaður hinn kínverski Warren Buffett.