„Þetta er gott uppgjör miðað við aðstæður. Við erum nokkuð sátt,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Hagnaður Landsvirkjunar nam 34,5 milljónum dala eða 4,4 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Á sama tíma í fyrra tapaði fyrirtækið hins vegar 52,2 milljónum dala. Hörður tekur fram að hann sé ánægður með niðurstöðuna nú enda hafi í fyrra gangvirðisbreytingar innbyggðra afleiða fyrirtækisins dregið afkomuna niður í fyrra. Niðurstaðan nú sýni að reksturinn er góður.

Tveir lykilþættur settu mark sitt á uppgjörið nú. Annars vegar var það lágt heimsmarkaðsverð á áli á fyrri hluta árs auk þess sem draga þurfti tímabundið úr framboði á ótryggri raforku vegna vatnsstöðu í miðlunarlónum í vor. Það leiddi til þess að tekjur Landsvirkjunar voru um 10 milljónum dölum lægri en gert var ráð fyrir.

Hörður segir horfa til betri vegar nú en á fyrri hluta árs. Álverð sem var í kringum 1.800 dalir á tonnið í vor standi nú í 2.100 dölum auk þess sem vatnsstaða í lónum hafi batnað.

„Við eigum eftir að sjá hvernig haustið verður. En horfur fyrir næsta ár eru ágætar,“ segir Hörður.