Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að úrskurður umhverfisráðherra um álver á Bakka, sé íþyngjandi fyrir framkvæmdaaðila. Úrskurðurinn geti auk þess seinkað undirbúningi um meira en eitt ár nema fundin verði sérstök leið til að flýta rannsóknum á háhitasvæðum. Þetta kemur fram í helgarviðtali við Friðrik í Viðskiptablaðinu í dag.

Í viðtalinu kemur einnig fram að ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins hafi greint hagsmunaðilum frá því í vikunni að leitað yrði allra leiða til að koma í veg fyrir seinkun.

„Á fundi framkvæmdaaðila og sveitarstjórna með skipulagsstjóra og ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins, sem haldinn var í vikunni, sagði ráðuneytisstjórinn að leitað yrði allra leiða til að koma í veg fyrir seinkun," segir Friðrik.

Umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, kvað upp umræddan úrskurð sinn í síðustu viku. Í honum segir að fram skuli fara sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum álversins við Bakka á Húsavík og tengdum framkvæmdum.

Mismunandi mat á áhrifum úrskurðarins

Þórunn sagði í samtali við Sjónvarpið í vikunni að ekkert benti til þess að umhverfismatsferlið ætti eftir að fresta því að álverið risi á Bakka. Katrín Júlíusdóttir, formaður iðnaðarnefndar Alþingis, sagði einnig við Sjónvarpið að þetta myndi ekki tefja framkvæmdir um einn einasta dag.

Kristján Þ. Halldórsson, verkefnisstjóri samfélagsmála Alcoa á Norðurlandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ráðgert sé að álverið taki til starfa árið 2012 en hraði uppbyggingar eftir það ráðist af framboði orku frá háhitasvæðunum.

Sjá nánar hér og í helgarblaði Viðskiptablaðsins.