Þýska flugfélagið Lufthansa, sem er stærsta flugfélag Evrópu, tilkynnti fyrir stundu að félagið myndi fækka starfsmönnum um 3.500 vegna hærri skatta og gjalda auk hækkandi eldsneytisverðs.

Christoph Franz forstjóri flugfélagsins var ómyrkur í máli í garð evrópskra stjórnmálamanna og kenndi þeim m.a. um uppsagnirnar. "Við getum ekki beðið eftir því að stjórnmálamenn viðurkenni þann skaða sem hlotist hefur af sköttum og gjöldum á flugsamgöngur og á orðspori Evrópu sem viðskiptasvæðis."

Sérstakur kolefnisskattur var lagður á allar flugsamgöngur í Evrópu í ársbyrjun sem hefur valdið mörgum evrópskum flugfélögum erfiðleikum.

Lufthansa tilkynnti eftir lokun markaða í gær að tap félagsins hafi numið 400 milljónum evra, um 64 milljörðum króna, á fyrsta ársfjórðungi ársins. SAS tilkynnti í dag að félagið tapaði 729 milljónum sænskra króna, um 15 milljörðum króna á sama tímabili. Í morgun óskaði danska flugfélagið Climber Sterling eftir gjaldþrotaskipum .

Þessi tíðindi eru til marks um að evrópsk flugfélög eigi við verulegan vanda að stríða.