Marel hagnaðist um 8,4 milljónir evra, jafnvirði tæpra 1,4 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi. Þetta er 2,1 milljón evra minna en á sama tíma í fyrra þegar hagnaðurinn nam 10,5 milljónum evra. Samdrátturinn nemur 20% á milli ára. Hagnaðurinn jafngildir 1,15 evrusenta hagnaði á hlut nú samanborið við 1,42 evrusent á hlut í fyrra. Í uppgjöri fyrirtækisins segir að afkoman endurspegli hægari vöxt í hagkerfum heimsins sem skapað hafi óvissu og tafið fjárfestingar.

Fram kemur í uppgjöri Marel að tekjur á fjórðungnum námu 164,3 milljónum evra sem er 2,8% lægra en í fyrra. Það sem af er ári nema tekjurnar 535,6 milljónum evra, sem er 10,6% aukning frá sama tíma í fyrra.

Rekstrarhagnaður félagsins (EBITDA) nam 20,5 milljónum evra samanborið við 25,8 milljónir á þriðja fjórðungi í fyrra.

Handbært fé Marel frá frekstri nam 13,7 milljónum evra í lok fjórðungsins og námu nettó vaxtaberandi skuldir 261,1 milljón evra.

Þá kemur fram í uppgjörinu að pantanir hafi dregist saman á milli ára. Þær námu 151 milljón evra í lok þriðja ársfjórðungs en stóðu í 196,8 milljónum evra á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn á milli ára nemur 23%

Í tilkynningu frá Marel er haft eftir forstjóranum Theo Hoen að aðstæður á mörkuðum hafi verið krefjandi og niðurstöðurnar undir væntingum.

„Miðað við aðstæður megum við þó vel við una,“ segir hann.

Uppgjör Marel