Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, og tíu manna framkvæmdastjórn fyrirtækisins mun á fundi sínum í Hollandi standa upp frá borði klukkan 11 á föstudagsmorgun og hlaupa fimm kílómetra. Hlaupið er liður í áheitahlaupi starfsfólks Marel hér á landi til styrktar starfsemi SOS-barnaþorps í þorpinu Yamossoukro á Fílabeinsströndinni í Afríku. Í skólanum eru 210 börn. Á sama tíma og framkvæmdastjórnin stendur upp af fundi sínum hittast starfsmenn Marel hér á landi í Heiðmörk. Markmiðið er að hlaupa 6.500 kílómetra eða sem nemur vegalengdinni frá Íslandi til Fílabeinsstrandarinnar. Hlaupið stendur yfir í sólarhring og lýkur því klukkan 11 á laugardagsmorgun.

Marel hefur skuldbundið sig til að styrkja SOS-barnaþorpið í þrjú ár. Í fyrra söfnuðust 11,5 milljónir króna til styrktarverkefnisins. Áheitum er safnað á vefsíðunni Tour de Marel . Hægt er að smella á tengilinn og styrkja verkefnið.

Ofurhlaupari leiðir hópinn

Langhlauparinn Kári Steinn Karlsson ræsir hlaupið í Heiðmörkinni á föstudag og verður þá klukkan ræst sem telur niður klukkustundirnar í einum sólarhring en hlaupið verður alla nóttina. Síðdegis er gert ráð fyrir að vinir og vandamenn starfsfólk bætist í hópinn þegar á líður og munu hlaup þeirra bætast við samanlagða vegalengdina.

Auðbjörg Ólafsdóttir, fjárfestatengill Marel, reiknar með því að hlaupa þrjá til fjóra fimm kílómetra hringi í Heiðmörk. En hringirnir eru talsvert fleiri. „Við erum búin að reikna þetta út og þetta verða 1.300 fimm kílómetra hringir,“ segir hún. Starfsmenn Marel hér á landi eru um 500 og því þarf hver þeirra að hlaupa um tvo og hálfan hring til að ná markmiðinu. Þau hafa verið á hlaupanámskeiði síðustu vikurnar til að komast í gírinn. Nokkrir langhlauparar ættu þó að geta halað inn nokkrum kílómetrum. Á meðal þeirra er Þorbergur Ingi Jónsson, sem kom fyrstur í mark í Laugarvegshlaupinu í sumar.