Raymond Gilmartin aðalforstjóri bandaríska lyfjarisans Merck hefur sagt starfi sínu lausu. Afsögn Gilmartin kemur í kjölfar mikilla erfiðleika sem félagið hefur orðið að ganga í gegnum vegna afturköllunar á Vioxx gigtarlyfinu síðastliðið haust. Richard Clark, sem lengi hefur starfað hjá fyrirtækinu, leysir Gilmartin af hólmi.

Fyrirtækið tók Vioxx af markaði eftir að prófanir á lyfinu leiddu í ljós að notkun þess eykur hlutfallslega hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Um það hefur reyndar verið deilt en fyrirtækið sá sér ekki annað fært en að taka lyfið af markaði.