The Guardian greinir frá því í dag að John Thain, forstjóri Merrill Lynch eigi í viðræðum við fjárfesta frá Kína og Mið-austurlöndum í þeirri von að auka hlutafé bankans á næstu misserum. Um jólin seldi Merrill Lynch hlutafé til Temasek í Singapúr upp á 4,4 milljarða bandaríkjadala en stjórnendur bankans vilja auka hlutafé hans enn frekar.

Nú þegar hefur Merrill Lynch þurft að afskrifa rúmlega 8 milljarða bandaríkjadala en sumir sérfræðingar á Wall Street telja, að sögn The Guardian, að vandamál bankans og fleiri banka séu rétt að byrja. Einn viðmælandi blaðsins segir að John Thain sé að leita eftir auknu eigin fé bankans og til þess þurfi hann að auka hlutafé eða selja einingar frá bankanum.

Annar viðmælandi blaðsins segir að fjárfesting Temasek nægi ekki eins og sakir standa og því þurfi að leita fleiri fjárfesta. Í dag sé þá helst að finna í Kína og við Persaflóa.

The Guardian segir aukið lausafé bankans mun vera nauðsynlegt til að halda starfssemi bankans á góðu róli og takast á við þau vandamál sem kunna að vera í uppsiglingu. Búist er við frekari afskriftum bankans á fjórða ársfjórðungi og því þurfi bankinn að styrkja lausafjárstöðu sína.

Blaðið hefur eftir heimildarmanni sem það segir innanbúðarmann í Merrill Lynch að Thain og helstu stjórnendur bankans hafi ekki tekið sér frí um áramótin eins og áætlað hefði verið heldur vinni að því allan sólarhringinn að fá nýja fjárfesta inn í bankann. Þá hefur blaðið eftir sama heimildarmanni að sameining við annan banka sé ekki útilokuð þó það sé ekki forgangsatriði. Það er allt á borðinu, hefur blaðið eftir þessum heimildarmanni.

Síðustu daga hafa borist fréttir af því að þegar allt er samantalið muni Merrill Lynch þurfa að afskrifa á milli 10-15 milljarða bandaríkjadala vegna erfiðleika á undirmálslánamarkaði síðustu mánuði. Eins og fyrr segir hafa 8 milljarðar þegar verið afskrifaðir.

Samkvæmt reglugerð frá árinu 2004 eru fjárfestingabankar, líkt og aðrir bankar, skyldugir til að hafa ákveðið lausafé til takst til að halda starfssemi sinni gangandi. Merrill Lynch er ekki eini bankinn sem leitar nú nýrra fjárfesta heldur hafa bæði Citigroup og UBS sóst eftir auknum fjárfestingum í bönkum sínum til viðbótar við það sem nú þegar er komið.

Nú þegar hefur Merrill Lynch tilkynnt um uppsögn um 1.600 starfsmanna.