Forstjóri Merrill Lynch, John Thain, hefur gefið í skyn að hann vilji 10 milljónir dala í bónusgreiðslur. Fréttaveitan Reuters greinir frá þessu.

Sérstök nefnd um slíkar greiðslur starfar við fjárfestingabankann og samkvæmt viðmælendum Reuters hallast nefndin að því að hafna beiðni Thain og annarra yfirmanna Merrill Lynch um bónusgreiðslur fyrir þetta ár.

Á föstudaginn sl. samþykktu hluthafar fjárfestingabankans yfirtöku Bank of America á félaginu. Sú yfirtaka hefur í för með sér að á sjónarsviðið kemur risastórt fjármálafyrirtæki sem mun vera leiðandi á flestum sviðum fjármálamarkaðarins þar vestra.

Merrill Lynch samþykkti að sameinast Bank of America þann örlagaríka dag 15. september þegar Lehman Brothers féll. John Thain byggir rök sín fyrir bónusgreiðslu á því að hann hafi komið í veg fyrir hrun fjárfestingabankans með þeirri ákvörðun.