„Ég hef meiri áhuga á því hvaða þýðingu þetta hefur fyrir íslenskt efnahagslíf. Það er það sem við erum að horfa á,“ segir Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone, aðspurður um hvaða þýðingu það hafi fyrir Askar Capital að forstjóri félagsins, Tryggvi Þór Herbertsson, fari í hálfs árs leyfi til þess að sinna starfi sem efnahagsráðgjafi hjá forsætisráðuneytinu.

Fjárfestingabankinn Askar Capital tilheyrir Milestone samstæðunni. Nánar tiltekið undir hatti sænska fjármálaþjónustufyrirtækisins Moderna, sem aftur er í eigu Milestone.

Erfiðleikar ríkja í efnahagsmálum bæði hér heima og á alþjóðlega vísu, líkt og flestum er kunnugt um. Guðmundur segir að það hafi verið auðsótt mál að gefa Tryggva Þór hálfs árs frí til að taka að sér þetta verkefni. Enda hafi Guðmundur mikla trú á að Tryggva Þór láti að sér kveða sem efnahagsráðgjafi hjá forsætisráðuneytinu á erfiðum tímum í efnahagslífinu.

„Við styðjum þessa ákvörðun að ráða Tryggva Þór sem efnahagsráðgjafa. Við teljum þetta mjög skynsamlega ákvörðun,“ segir Guðmundur í samtali við Viðskiptablaðið. „Það er af nógu að taka,“ bætir hann við.

Aðspurður hvort reiknað er með að Tryggvi Þór komi aftur til starfa hjá Askar Capital bendir Guðmundur á að Tryggvi Þór sé enn þá forstjóri fjárfestingabankans. Hann sé einungis í leyfi. „Hann er ekkert að hætta og tekur aftur við að öllu óbreyttu,“ segir Guðmundur.

Á meðan mun Benedikt Árnason aðstoðarforstjóri taka við stjórnartaumum fyrirtækisins.

Guðmundur segir rekstur Askar Capital vera í góðum farvegi. Hinsvegar séu markaðsaðstæður á þá vegu að áhersla sé lögð á innri vöxt, setja upp verkferla og svo framvegis, enda hafi hægt um í alþjóðlegu fjármálakerfi. Nú er áhersla lögð á að „vinna í garðinum heima,“ segir hann.